Innanlandsstarf
Öðlaðist kjark til að stíga inn í erfiðar aðstæður
26. september 2025
Eydís Ösp Eyþórsdóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, finnur vel hversu þakklátt fólk er fyrir stuðning viðbragðshópa félagsins sem kallaðir eru út er áföll dynja yfir fólk eða samfélög.
„Sjálfboðaliðastörf fyrir Rauða krossinn hafa gefið mér gífurlega mikla reynslu og þekkingu, kjark til þess að stíga inn í aðstæður sem eru erfiðar og víkkað mitt hugarfar,“ segir Eydís Ösp Eyþórsdóttir, djákni í Glerárkirkju á Akureyri og fjögurra barna móðir, búsett í Hörgársveit. Eydís er sjálfboðaliði í viðbragðshópi Rauða krossins á Eyjafjarðarsvæðinu, sem þýðir að þegar áföll dynja yfir einstaklinga eða samfélög mætir hún til að hlúa að þeim sem fyrir þeim verða. „Við í viðbragðshópnum erum kölluð út ef þörf er á sálfélagslegum stuðningi, til dæmis eftir slys, náttúruhamfarir og fleira.“
Er Eydís var í námi í félagsráðgjöf var hún sjálfboðaliði hjá Hjálparsímanum 1717 sem Rauði krossinn rekur. „Það var mjög gefandi starf,“ segir hún. Árið 2021 var hún spurð hvort hún gæti hugsað sér að ganga til liðs við sjálfboðaliða í viðbragðshópi. „Og ég var ekki lengi að segja já!“
Áður en hún hóf störf með hópnum fékk hún góðan undirbúning og þjálfun; sótti ýmis námskeið, bæði bókleg og verkleg og fékk svo að fylgja reyndum sjálfboðaliðum í fyrstu útköllin. „Það var bæði gott og gefandi.“
Hún segir það hafa komið sér á óvart hvað sjálfboðaliðastarfið í viðbragðshópnum skiptir miklu máli og er mikilvægt öllu samfélaginu. „Maður finnur það alveg hvað fólk er þakklátt fyrir þessi störf.“
Eydís segist mæla 100% með því að fólk gerist sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum. Félagið starfar út um allt land að fjölbreyttum verkefnum sem sjálfboðaliðar bera að miklu leyti uppi. „Þetta er mjög skemmtilegt samfélag,“ segir Eydís um Rauða kross störf sín. „Að vera sjálfboðaliði er gefandi og það eru mörg verkefni hjá Rauða krossinum sem þurfa fleiri liðsmenn.“
Hér getur þú kynnt þér mannúðarverkefnin sem Rauði krossinn vinnur að, séð hvar er mest þörf á nýjum sjálfboðaliðum og sótt um sem sjálfboðaliði.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.
Söfnunarfé frá almenningi til Mjanmar
Alþjóðastarf 04. nóvember 2025Fé sem safnaðist í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi í kjölfar jarðskjálftanna í Mjanmar í lok mars mun nýtast Rauða krossinum þar í landi til áframhaldandi stuðnings við þolendur hamfaranna.