Innanlandsstarf
Öðlaðist kjark til að stíga inn í erfiðar aðstæður
26. september 2025
Eydís Ösp Eyþórsdóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, finnur vel hversu þakklátt fólk er fyrir stuðning viðbragðshópa félagsins sem kallaðir eru út er áföll dynja yfir fólk eða samfélög.
„Sjálfboðaliðastörf fyrir Rauða krossinn hafa gefið mér gífurlega mikla reynslu og þekkingu, kjark til þess að stíga inn í aðstæður sem eru erfiðar og víkkað mitt hugarfar,“ segir Eydís Ösp Eyþórsdóttir, djákni í Glerárkirkju á Akureyri og fjögurra barna móðir, búsett í Hörgársveit. Eydís er sjálfboðaliði í viðbragðshópi Rauða krossins á Eyjafjarðarsvæðinu, sem þýðir að þegar áföll dynja yfir einstaklinga eða samfélög mætir hún til að hlúa að þeim sem fyrir þeim verða. „Við í viðbragðshópnum erum kölluð út ef þörf er á sálfélagslegum stuðningi, til dæmis eftir slys, náttúruhamfarir og fleira.“
Er Eydís var í námi í félagsráðgjöf var hún sjálfboðaliði hjá Hjálparsímanum 1717 sem Rauði krossinn rekur. „Það var mjög gefandi starf,“ segir hún. Árið 2021 var hún spurð hvort hún gæti hugsað sér að ganga til liðs við sjálfboðaliða í viðbragðshópi. „Og ég var ekki lengi að segja já!“
Áður en hún hóf störf með hópnum fékk hún góðan undirbúning og þjálfun; sótti ýmis námskeið, bæði bókleg og verkleg og fékk svo að fylgja reyndum sjálfboðaliðum í fyrstu útköllin. „Það var bæði gott og gefandi.“
Hún segir það hafa komið sér á óvart hvað sjálfboðaliðastarfið í viðbragðshópnum skiptir miklu máli og er mikilvægt öllu samfélaginu. „Maður finnur það alveg hvað fólk er þakklátt fyrir þessi störf.“
Eydís segist mæla 100% með því að fólk gerist sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum. Félagið starfar út um allt land að fjölbreyttum verkefnum sem sjálfboðaliðar bera að miklu leyti uppi. „Þetta er mjög skemmtilegt samfélag,“ segir Eydís um Rauða kross störf sín. „Að vera sjálfboðaliði er gefandi og það eru mörg verkefni hjá Rauða krossinum sem þurfa fleiri liðsmenn.“
Hér getur þú kynnt þér mannúðarverkefnin sem Rauði krossinn vinnur að, séð hvar er mest þörf á nýjum sjálfboðaliðum og sótt um sem sjálfboðaliði.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Hvert og eitt okkar getur skipt sköpum í lífi annarra
Innanlandsstarf 05. desember 2025„Að vera sjálfboðaliði hefur gefið mér tilgang,“ segir Viktoria Weinikke, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. „Það hefur gefið mér samfélag og dýpri tilfinningu fyrir því að tilheyra á Íslandi.“ Hún er frá Úkraínu og hefur verið á Íslandi í að verða tvö ár.
Sjálfboðaliðastörfin hafa víkkað sjóndeildarhringinn
Innanlandsstarf 02. desember 2025Þrátt fyrir ungan aldur hefur Salvör Ísberg verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum í átta ár. Og nú samhliða doktorsnámi og starfi hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Fyrstu Fánaberar Rauða krossins komu saman á Bessastöðum
Almennar fréttir 01. desember 2025Níu framtakssamir og hugmyndaríkir einstaklingar úr íslensku viðskipta- og menningarlífi hafa verið sérvaldir til að taka þátt í nýju fjáröflunarverkefni Rauða krossins. Þau munu næsta árið nota „ofurkrafta sína í þágu mannúðar,“ líkt og Halla Tómasdóttir forseti Íslands sagði við hópinn á viðburði á Bessastöðum.