Innanlandsstarf
Ungu fólki úr Grindavík boðið á námskeið
01. september 2025
Rauði krossinn heldur áfram að styðja við bakið á ungu fólki úr Grindavík og nú með námskeiðum í samstarfi við Litlu Kvíðameðferðarstöðina.
Ungu fólki úr Grindavík á aldrinum 16-25 ára býðst í haust og vetur að sækja ókeypis námskeið sem hluta af verkefninu Viðnámsþróttur Suðurnesja. Markmiðið er að efla seiglu og sjálfstraust og veita hagnýt verkfæri sem nýtast í daglegu lífi til framtíðar. Sérfræðingar Litlu Kvíðameðferðarstöðvarinnar standa að námskeiðunum og eru þau í boði Rauða krossins. Fyrirtækið Rio Tinto er styrktaraðili verkefnisins.
„Verkefnið Viðnámsþróttur Suðurnesja, sem Rauði krossinn heldur úti, snýst um að styðja íbúa svæðisins, einkum Grindvíkinga, í kjölfar þeirra áskorana sem samfélagið hefur staðið frammi fyrir,“ segir Jasmina Vajzovic Crnac, verkefnastjóri verkefnisins. „Með þessum námskeiðum fá ungmenni tækifæri til að styrkja sig, læra aðferðir til að takast á við álag og byggja upp trú á eigin getu.“
Í boði verða þrjú námskeið: HAM-fræðsla um aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar, Hættu að fresta þar sem unnið er með frestunarvenjur og hagnýtar leiðir til að rjúfa vítahringi og Vertu þú! sem snýst um að efla sjálfsmynd og sjálfstraust.
„Við viljum styðja ungt fólk sem hefur orðið fyrir miklum breytingum og álagi undanfarið,“ segir Ellen Sif Sævarsdóttir, sálfræðingur hjá Litlu Kvíðameðferðarstöðinni. „Markmiðið er að styrkja innri seiglu, efla sjálfstraust og bjóða ungmennum öflug verkfæri til að takast á við lífið, ný tækifæri og þær áskoranir sem bíða þeirra.“
Námskeiðin verða haldin á tveimur stöðum: Í húsnæði Litlu kvíðameðferðarstöðvarinnar í Síðumúla 13 í Reykjavík og í húsnæði Rauða krossins að Smiðjuvöllum 8 í Reykjanesbæ.
Skráning fer fram hjá Litlu Kvíðameðferðarstöðinni og mikilvægt er að tryggja sér pláss tímanlega. Miðað er við að á hverju námskeiði verði að hámarki tuttugu þátttakendur.
Jasmina hvetur ungmenni til að skrá sig tímanlega. „Þetta er einstakt tækifæri til að styrkja sjálfan sig, byggja upp trú á eigin getu og fá verkfæri sem nýtast alla ævi.“
Eftirfarandi námskeið eru í boði:
HAM fræðsla
3ja klukkustunda námskeið þar sem farið verður í grunnatriði hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) við að ná tökum á vanlíðan og fyrirbyggja vanda.
Reykjavík:
Laugardagur 6. september, kl: 14-17
Laugardagur 10. janúar, kl: 14-17
Reykjanesbær:
Laugardagur 20. september, kl: 14-17
Laugardagur 24. janúar, kl: 14-17
Hættu að fresta
2x 2ja klukkustunda námskeið þar sem farið er yfir algengar ástæður og vítahringi frestunar og verkfæri til þess að vinna með vandann.
Reykjavík:
Fimmtudagar 11. og 18. september, kl: 17-19
Fimmtudagar 15. og 22. janúar, kl: 17-19
Reykjanesbær:
Fimmtudagar 2. og 9. október, kl: 17-19
Mánudagar 2. og 9. febrúar, kl: 17-19
Vertu þú!
2x 2ja klukkustunda námskeið fyrir þá sem vilja efla sjálfsmynd sína og trú á eigin getu. Unnið verður að ýmsum verkefnum til að skilja og styrkja eigin sjálfsmynd.
Reykjavík:
Mánudagar 6. og 13. október, kl: 17-19
Þriðjudagar, 3. og 10. febrúar, kl: 17-19
Reykjanesbær:
Miðvikudagar 22. og 29. október, kl: 17-19
Fimmtudagar 19. og 26. febrúar, kl: 17-19
Skráðu þig hér. Vinsamlegast takið fram hvaða námskeið þið viljið skrá ykkur á og hvort þið viljið mæta á það/þau í Reykjavík eða í Reykjanesbæ.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
Innanlandsstarf 27. október 2025„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
Alþjóðastarf 21. október 2025Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.