Innanlandsstarf
Rauði krossinn hefur neyðarsöfnun fyrir Grindavík
14. janúar 2024
Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun vegna eldgossins við Grindavík. Afrakstur hennar verður nýttur til að styðja Grindvíkinga fjárhagslega.

Rauði krossinn á Íslandi hefur sett af stað neyðarsöfnun vegna eldgossins sem hófst við Grindavík nú í morgun. Henni er ætlað að styðja íbúa bæjarins.
Það hryggir okkur að eldgosið valdi skemmdum á heimilum fólks og innviðum bæjarins. Hugur okkar er hjá Grindvíkingum og við munum standa með þeim í gegnum þetta erfiða tímabil og vera til staðar eins lengi og þörf krefur.
Öllu fé sem safnast í þessari söfnun verður úthlutað til Grindvíkinga í gegnum úthlutunarnefnd, að undanskildum kostnaði við úthlutunina sjálfa. Úthlutunarnefndin samanstendur af fulltrúum Rauða krossins, félagsþjónustu Grindavíkurbæjar og kirkjunnar í Grindavík. Hægt er að sækja um fjárstuðning í þjónustumiðstöð Grindvíkinga í Tollhúsinu við Tryggvagötu.
Við vitum að fjölmargir aðilar, bæði innlendir og erlendir, hafa mikla samúð með þeim hamförum sem Grindvíkingar standa nú frammi fyrir og vilja leggja sitt af mörkum til að styðja bæjarbúa og hjálpa þeim að komast í gegnum þessar hremmingar. Þessari söfnun er ætlað að koma til móts við öll þau sem vilja leggja sitt af mörkum og veita bæjarbúum stuðning.
Svona getur þú styrkt söfnunina:
👉https://www.raudikrossinn.is/styrkja/stakur-styrkur/
👉SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.) (Síminn og Nova)
👉Hringja í 904-2500 til að styrkja um 2.500 kr.
👉Aur/Kass: @raudikrossinn
👉Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.

Rafrænt HAM-námskeið fyrir Grindvíkinga
Innanlandsstarf 08. október 2025Rauði krossinn heldur áfram að bæta í verkfærakistu Grindvíkinga. Fjarnámskeið í hugrænni atferlismeðferð á vegum Framvegis – símenntunarstöðvar er nú í boði.

36 milljónir króna til mannúðarstarfs í Úkraínu
Alþjóðastarf 03. október 2025Frá því átökin í Úkraínu hófust hefur Alþjóðasamband Rauða krossins, í samstarfi við úkraínska Rauða krossinn, veitt meira en 17 milljónum einstaklinga mannúðaraðstoð. Á sama tíma hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins, veitt rúmlega 265,8 milljónum króna til mannúðarstarfs í landinu.