Fara á efnissvæði

Innanlandsstarf

Sjálfboðaliðastörfin hafa víkkað sjóndeildarhringinn

02. desember 2025

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Salvör Ísberg verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum í átta ár. Og nú samhliða doktorsnámi og starfi hjá Íslenskri erfðagreiningu. Fjöldahjálp, aðstoð við heimanám, stuðningur við flóttafólk – allt eru þetta verkefni sem hún hefur tekið þátt í.

Salvör Ísberg einbeitir sér nú m.a. að ungmennum í sjálfboðaliðastörfum sínum hjá Rauða krossinum.

Um tvítugt sá Salvör Ísberg auglýst eftir sjálfboðaliðum í heimanámsaðstoð á vegum Rauða krossins. „Mér fannst það hljóma eins og spennandi verkefni, sem það sannarlega var, og ákvað að taka þátt. Eitt leiddi svo af öðru og hér er ég enn – átta árum síðar!“

Salvör er Vesturbæingur í húð og hár. Hún stundar nú doktorsnám í líf- og læknavísindum og starfar hjá Íslenskri erfðagreiningu. Þrátt fyrir það álag sem því fylgir er Salvör virkur sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum – og það í fleiru en einu verkefni. Hún hefur m.a. unnið með ungu fólki, flóttafólki og fólki sem hefur þurft að flýja heimili sín hér á landi.

„Ég er núna í fjöldahjálparteyminu sem heyrir undir neyðarvarnir Rauða krossins,“ segir Salvör. Teymið sér m.a. um að opna fjöldahjálparstöðvar er áföll af ýmsum toga dynja yfir, hvort sem er vegna slysa eða náttúruhamfara, s.s. eldgosa eða óveðurs. „Fjöldahjálparstöðvar eru oft opnaðar í skólum eða öðrum opinberum byggingum og eru öruggt skjól fyrir fólk sem þarf að flýja heimili sín tímabundið. Þær er hægt að opna og starfrækja með skömmum fyrirvara.“

Sækja um sem sjálfboðaliði

Meðal verkefna sem fylgja opnun fjöldahjálparstöðva er að halda utan um skráningar fólks sem þangað kemur og að veita því sálfélagslegan stuðning. „Í vetur hefur ég hins vegar mest verið að vinna í ungmennamálum,“ segir Salvör. „Við erum þrjár sem erum í forsvari fyrir því að efla ungmennastarf hjá Rauða krossinum hér heima. Þetta hefur verið afar skemmtileg vinna.“

Salvör hefur fengið margvíslegan undirbúning og fræðslu hjá Rauða krossinum fyrir sjálfboðaliðastörf sín. Hún hefur m.a. sótt námskeið í neyðarvörnum, sálrænum stuðningi og skyndihjálp. „Þetta eru mjög gagnleg námskeið sem ég mæli í raun með að sem flestir taki.“

Skemmtilegt og gefandi

Það hefur komið Salvöru á óvart hversu fjölbreytt sjálfboðaliðastörfin hjá Rauða krossinum eru. „Engin tvö verkefni eru eins,“ segir hún. „Ég hef kynnst mörgu skemmtilegu fólki og þessi störf hafa víkkað sjóndeildarhringinn. Ég hef einnig verið mjög lukkuleg og fengið að fara erlendis til að kynnast ungmennastarfi Rauða krossins og Rauða hálfmánans í öðrum löndum. Það hefur verið alveg frábær reynsla.“

Hún mælir eindregið með því að fólk, sérstaklega ungt fólk, gerist sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum. „Þetta er afar skemmtilegt og fjölbreytt starf. Í því fær maður tækifæri til að láta gott af sér leiða en einnig lærir maður heilmikið í gegnum starfið. Svo skemmir ekki fyrir að félagsskapurinn er upp á tíu.“

Hér getur þú kynnt þér verkefni Rauða krossins, séð í hver þeirra vantar nú sjálfboðaliða og sótt um að gerast sjálfboðaliði.

Pexels Anastasia Shuraeva 9501978

Vissir þú að ...

að skipulögð sjálfboðastörf geta verið hluti af námi á unglinga-, framhaldsskóla- og háskólastigi? Rauði krossinn á Íslandi tekur reglulega á móti nemendum í sjálfboðastörf í tengslum við nám þeirra.

Allar fyrirspurnir vegna sjálfboðastarfa í tengslum við nám, Erasmus-verkefni og starfsnám má senda á central@redcross.is