Innanlandsstarf
Skaðaminnkandi þjónusta kynnt á Akureyri
08. maí 2023
Næsta miðvikudag verður Rauði krossinn við Eyjafjörð með kynningu á þeirri skaðaminnkandi þjónustu sem boðið er upp á í Frú Ragnheiði og Naloxone nefúðanum.
Rauði krossinn við Eyjafjörð heldur kynningu á skaðaminnkunarverkefninu Frú Ragnheiði næsta miðvikudag kl. 16:30 í húsnæði sínu við Viðjulund 2 á Akureyri. Þar verður farið yfir hvað felst í þjónustu Frú Ragnheiðar og notkun á Naloxone nefúða verður kynnt, en nefúðinn getur veitt lífsbjargandi neyðaraðstoð við ofskömmtun.
Rauði krossinn á Íslandi rekur skaðaminnkunarverkefnið Frú Ragnheiður á þremur stöðum á landinu, á Höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Akureyri. Frú Ragnheiður vinnur eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði sem gengur út á að takmarka skaðann og áhættuna sem getur fylgt vímuefnanotkun í æð og að bæta lífsgæði og heilsufar notenda, fremur en að reyna að fyrirbyggja notkunina sjálfa. Þannig má takmarka skaðann sem fylgir þessari notkun, bæði fyrir notendur og samfélagið í heild.
Við hvetjum öll sem hafa áhuga á vímuefnamálum og skaðaminnkandi hugmyndafræði, hvort sem um að ræða almenning, fagfólk, notendur eða aðstandendur þeirra, til að koma að kynna sér þjónustuna.
Vilja fræða til að draga úr fórdómum
„Við ákváðum að halda þessa kynningu til að leyfa almenningi að koma og kynnast starfinu, fá fræðslu og spjalla við sjálfboðaliðana okkar,“ segir Edda Ásgrímsdóttir, hjúkrunarfræðingur og hópstjóri hjá Frú Ragnheiði á Akureyri. „Við teljum mikilvægt að kynna Frú Ragnheiði fyrir almenningi til þess að reyna draga úr fordómum og hvetja til skaðaminnandi hugsunar. Með fræðslu teljum við að fleiri geti tamið sér skaðaminnkandi hugsun, sem skilar sér svo vonandi í minni fordómum í garð viðkvæma skjólstæðingahópsins okkar.
Dagskráin verður létt og þægileg, við verðum með nokkrar stöðvar þar sem gestir geta kynnst mismunandi hliðum verkefnisins, svo sem heilbrigðishlutanum sem er t.d. meðhöndlun sára og sýkinga, nálaskiptahlutanum sem er þá búnaðurinn sem við bjóðum upp á og einnig verður í boði að æfa sig í endurlífgun með aðstoð sérhæfðs starfsmanns,“ útskýrir Edda. „Að lokum verðum við með fræðslu um Naloxone-nefúðann og afhendum þeim sem telja sig þurfa hann. Við erum mjög spenntar fyrir þessari kynningu og vonumst til að sjá sem flesta.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.
Söfnunarfé frá almenningi til Mjanmar
Alþjóðastarf 04. nóvember 2025Fé sem safnaðist í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi í kjölfar jarðskjálftanna í Mjanmar í lok mars mun nýtast Rauða krossinum þar í landi til áframhaldandi stuðnings við þolendur hamfaranna.