Innanlandsstarf
Starfsmenn Rauða krossins kenndu í Vísindaskólanum
29. júní 2023
Tveir starfsmenn Rauða krossins við Eyjafjörð tóku þátt í kennslunni hjá Vísindaskóla unga fólksins í Háskólanum á Akureyri fyrr í mánuðinum, en hann er ætlaður ungmennum á aldrinum 11-13 ára.

Þær Inga Lilja Ólafsdóttir, verkefnastjóri í málefnum flóttafólks, og Sóley Björk Stefánsdóttir, verkefnastjóri í Eyjafjarðadeild, tóku þátt í kennslu í Vísindaskólanum á Akureyri fyrr í mánuðinum þar sem þær fjölluðu um upplifanir flóttafólks.
Markmið Vísindaskólans er að bjóða ungmennum á aldrinum 11-13 ára upp á fræðandi og skemmtilega afþreyingu. Þar fá ungmennin að kynnast þemum sem endurspegla fjölbreytt námsframboð Háskólans á Akureyri. Kennd eru fimm námskeið, eitt á hverjum degi.
Eitt af námskeiðunum sem skólinn bauð upp á í sumar hét „Að eiga hvergi heima“ og þar voru skoðaðar spurningar eins og „Af hverju verða stríð?“, „Hvernig leysast þau?“, „Hverjar eru afleiðingar stríðs?“ og „Hvernig ætli það sé að komast aldrei aftur í sitt eigið rúm?“.

„Til við að svara þessum spurningum einbeittum við okkur að mikilvægi þess að setja sig í spor annarra, ræddum um fordóma og fordómaleysi, fjölbreytileika og umburðarlyndi, hvað mannúð væri og hvernig þau gera betur en fyrri kynslóðir, svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Anna Karen Úlfarsdóttir, verkefnastjóri hjá Háskólanum á Akureyri.
Krakkarnir veltu ýmsu fyrir sér út frá þessu þema og skreyttu teikningu af friðardúfu með vangaveltum sínum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Maður gefur af sér en fær svo mikið til baka“
Innanlandsstarf 05. ágúst 2025Notendur Frú Ragnheiðar tóku Írisi Ósk Ólafsdóttur strax vel er hún hóf þar sjálfboðaliðastörf. „Þrátt fyrir að starfið geti tekið á andlega þá er það líka það sem gerir þetta svo verðmætt því þetta snýst um að vera manneskja fyrir aðra manneskju á stundum sem skipta máli,“ segir Íris.

Breytt fyrirkomulag á stuðningi við Grindvíkinga
Innanlandsstarf 01. ágúst 2025Í haust verða gerðar breytingar á stuðningi Rauða krossins við Grindvíkinga sem þurftu að rýma heimili sín vegna jarðhræringanna 10. nóvember 2023. Hætt verður að taka við umsóknum í styrkarsjóðinn Þrótt Grindvíkinga en áfram stutt við einstaklinga með fræðslu og námskeiðum.

Gátu flutt hjálpargögn til Sweida
Alþjóðastarf 30. júlí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins fór ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum í sendiferð til Sweida í suðurhluta Sýrlands með nauðsynleg hjálpargögn og til að meta þarfir íbúanna á svæðinu fyrir frekari aðstoð. Fjölmargt fólk frá Sweida og nágrenni býr á Íslandi.