Innanlandsstarf
Þekkir kasmírull úr margra metra fjarlægð
11. september 2025
Miklar breytingar hafa orðið á fataverkefni Rauða krossins á síðustu mánuðum. Félagið mun áfram taka við textíl til endursölu og til neyðaraðstoðar innanlands en Sorpa hefur tekið við magnútflutningi.

Staflar af fötum og öðrum textíl. Tonn á tonn ofan. Mörg slík á dag. Sumar flíkurnar handónýtar. Aðrar lélegar. „En inn á milli leynast oft gullmolar,“ segir Guðbjörg Rut Pálmadóttir, teymisstjóri fatasöfnunar hjá Rauða krossinum. Það kemur blik í auga er hún er beðin að taka dæmi um slíkt.
„Sko,“ segir hún hugsi. „Ég þekki auðvitað kasmírull úr margra metra fjarlægð!“ Hún hlær létt og heldur svo spennt áfram: „Við fundum stuttermabol merktan Sykurmolunum um daginn. Upprunalegan.”
Því það eru ekki endilega vinsælustu fatamerkin sem grípa auga Guðbjargar heldur vintage-fatnaður af ýmsum toga og föt úr gæðaefni. Kasmírull og silki. Sykurmolabolur frá tíunda áratugnum. Þess vegna þykir henni sérstaklega spennandi að fá fatagjafir frá eldra fólki. „Þá er oft veisla!“ segir hún. Upp úr slíkum pokum koma gjarnan vandaðar flíkur og vel með farnar.
Rauði krossinn hefur um langt árabil verið leiðandi í söfnun á notuðum textíl til endurnýtingar innanlands og til útflutnings. Sú breyting hefur nú orðið á að Sorpa hefur tekið við útflutningnum. Rauði krossinn mun halda áfram að safna textíl til endursölu og neyðaraðstoðar innanlands í sérmerktum söfnunarkössum sem verður fjölgað verulega á næstunni. Starfsemin í fatamiðstöðinni í Skútuvogi mun því breytast frá því sem verið hefur síðustu árin.
Stundum myndaðist umferðarteppa á planinu fyrir framan flokkunarstöðina enda var tekið við um 60-70 tonnum á viku allt árið í fyrra. Taktföst hljóðmerki frá bakkandi flutningabílum með fatagáma frá endurvinnslustöðvum Sorpu urðu grunnur að hljóðheimi endurnýtingar klæða. Færibandið var sett í gang. Innihald hvers einasta poka í gámnum var lagt þar á. Og reynslumikil augu og þrautþjálfaðar hendur í fataflokkuninni léku svo um þau. Þær grófflokkuðu í fyrstu umferð og fóru svo vandlega yfir hverja flík í þeirri næstu.

Eftir færibandinu kemur ljós skyrta. Guðbjörg sér á augabragði að hún er úr silki. „Sjáið þessa!“ segir hún glaðlega. Því það er jú fengur að flíkum úr góðum efnum. Um þær er jafnvel slegist í Rauða kross búðunum. En brosið dettur svo af andliti Guðbjargar. „Æ,“ stynur hún upp. „Það er stór blettur á henni.“ Kannski eftir einhverja veisluna. Þar sem eigandinn hefur farið ógætilega með olíubaðaða humarhala. Hver veit?
En Guðbjörg er fljót að taka gleði sína á ný. „Það er alltaf spennandi að opna gám,“ útskýrir hún. „Að ímynda sér hvað gæti komið úr honum. Hvort einhver gersemi séu inni á milli.“
Fötin halda áfram að koma á færibandinu. Allt fram streymir endalaust. Það á ágætlega við um það gríðarlega magn af fötum sem landsmenn láta frá sér á hverju ári. Allt er flokkað. Allt er nýtt með einhverjum hætti. Stærstur hluti er fluttur út. 3-7 tuttugu feta gámar fara út í hverri viku. Annað fer í Rauða kross búðirnar sem njóta vaxandi vinsælda. Þangað sækja þau sem þurfa ódýrar flíkur en líka þau sem vilja töff og vönduð föt. Öll sem kaupa fötin sín í búðunum leggja sín lóð á vogaskálar hringrásarhagkerfisins.
Starfsmennirnir í fataflokkuninni eru með góða tilfinningu fyrir því sem er líklegt til að slá í gegn í búðunum. Í búðinni í Kringlunni er starfsfólk í öðrum verslunum meðal fastagesta. Það fylgist sumt hvert mjög vel með því sem kemur á slá Rauða kross búðarinnar enda oft hægt að gera kjarakaup á hátískufatnaði. Framhaldsskólanemar eru svo annar stór kúnnahópur. Ungt og meðvitað fólk sem vill spara.

„Við söfnum jólakjólum allt árið,“ segir Guðbjörg og strýkur yfir rauðan barnakjól sem er stráheill. Eitthvert barnið á eftir að klæðast honum næstu jól og vonandi svo enn eitt jólin þar á eftir. Þannig halda vandaðar og vel með farnar flíkur lífi lengi. Fallega sniðin kápa og nýpússaðir spariskór munu vonandi hljóta sömu örlög.
„En við sjáum að gæðin á fötum sem fólk lætur frá sér eru að minnka,“ segir Guðbjörg. Hún hefur starfað við fataflokkunarverkefnið í rúmlega tólf ár og veit því hvað hún syngur. Hlutfall fatnaðar úr vönduðum og endingargóðum efnum fer minnkandi með hverju árinu. Sífellt meira af einnota fötum rata í gámana hjá Sorpu. Og sumum hefur aldrei verið klæðst. Neyslumynstur fólks hefur breyst og fatafjöllin halda áfram að hækka um allan heim. „Þetta er ekki góð þróun og ósjálfbær,“ segir Guðbjörg.
Nýju söfnunarkassar Rauða krossins munu bráðlega verða kynntir. Guðbjörg segir að almennt gangi fólk vel frá þeim fötum sem það setur í kassa merkta félaginu. „Sumum finnst eins og með því að setja fötin sín í gáma og söfnunarkassa séu þeir að henda þeim í svarthol en svo er alls ekki,“ segir hún og vísar þar til hinnar ítarlegu flokkunar sem hún og samstarfsfólkið ástundar. „Við bjóðum fólki líka að koma með framlögin beint í flokkunarstöðina til okkar þar sem starfsfólk tekur á móti þeim. Skiljanlega þykir mörgum gott að sjá framlögin sín komin í okkar hendur.“

Samfélagsþjónar, fólk sem er að ljúka afplánun á Vernd eða afplánar sína dóma alfarið í samfélagsþjónustu, starfa hjá fataflokkuninni. Það verkefni er unnið í samstarfi við Fangelsismálastofnun. „Það er ánægjulegt að fylgjast með þeim vaxa og dafna í starfi,“ segir Guðbjörg. Mörg dæmi séu um að fólk blómstri og fyllist sjálfstrausti. „Þeirra vinnuframlag skiptir sköpum fyrir fataverkefni Rauða krossins.“
Sömu sögu er að segja um þann góða hóp sjálfboðaliða í flokkuninni og þeim sem standa vaktina í búðum Rauða krossins. Allar þessar vinnufúsu hendur gera það að verkum að hægt er að reka verkefnið með hagnaði sem nýtist svo í önnur mannúðarverkefni félagsins.
„Þetta er oft mikil vinna en að sama skapi mjög skemmtilegt starf,“ segir hún. „Ég er ekki endilega með tískudellu en ég hef rosalega mikinn áhuga á fötum og textíl. Er fatanörd. Sé verðmæti í notuðum hlutum sem aðrir sjá kannski ekki. Svo ég er í alveg rétta starfinu!“
Viðtal þetta er úr ársskýrslu Rauða krossins. Í henni er að finna gott yfirlit yfir verkefni félagsins og áhugaverðar greinar um þau.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Hópastarf sem valdeflir hinsegin fólk á flótta
Innanlandsstarf 08. september 2025Alþjóðsamband Rauða krossins segir hópastarf á vegum Rauða krossins á Íslandi fyrir hinsegin fólk á flótta búa til einstakt umhverfi „þar sem þátttakendur upplifa viðurkenningu, virði og valdeflast“. Þátttakendur lýsa hópnum sem öruggu rými til að deila reynslu af áföllum og mismunun.

50 milljónir króna til neyðarsjúkrahússins á Gaza
Alþjóðastarf 03. september 2025Með stuðningi Mannvina og utanríkisráðuneytisins hefur Rauði krossinn á Íslandi styrkt neyðarsjúkrahús Rauða krossins á Gaza um 50 milljónir króna. „Neyðarsjúkrahúsið er líflína þúsunda í hörmungunum miðjum,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins.

„Við höfum öll eitthvað fram að færa“
Almennar fréttir 02. september 2025Hadia Rahman, nemi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, segir frá flóttanum frá Afganistan og hvað fjölskyldan hefur lagt á sig til að eiga gott líf á Íslandi.