Innanlandsstarf
Úr fjárhúsi í fataflokkun: Stoltur af því að vera sjálfboðaliði
22. desember 2025
„Sjálfboðaliðastarfið hefur gefið mér tilbreytingu í amstri dagsins auk þess góða félagsskapar sem ég hef notið í vinnunni þessi ár,“ segir Lárus Sigurðsson, sjálfboðaliði í fataverkefni Rauða krossins á Akureyri. Tilviljun réði því að hann hóf þar störf.
Lárus Sigurðsson var sauðfjárbóndi í Breiðdal í tæplega hálfa öld. Er hann flutti til Akureyrar og komst á eftirlaun vantaði hann að eigin sögn viðfangsefni. Skömmu síðar var hann kominn með fangið fullt af fötum sem sjálfboðaliði í fataflokkun Eyjafjarðardeildar Rauða krossins.
„Það má segja að það sé tilviljun að ég gerðist sjálfboðaliði,“ segir Lárus, spurður um hvernig Rauði krossinn kom inn í líf hans. „Ég hafði alla tíð haft mikið að gera en á þessum tíma, fyrir sjö árum, var staðan önnur. Ég var þátttakandi í félagsstarfi eldri borgara á Akureyri og einn daginn fór maður að spjalla við mig og sagði mér að það vantaði mann í sjálfboðavinnu í fataflokkun og hvatti mig til að skoða það. Ég var ekki alveg viss en ákvað að prófa. Í framhaldi af þessu samtali bankaði ég upp á hjá deildarstjóra Eyjafjarðardeildar og eins skrítið og mér fannst það þá, var ég munstraður í sjálfboðastarf.“
Hefur gengið í öll störf
Störfin hóf hann í nóvember 2018 og þá voru flestir sjálfboðaliðarnir í fataflokkuninni þaulvanir og komu honum vel inn í verkefnin. Það þarf að sækja föt í móttökugámana, flokka allt og tína til það sem fer í endursölu í Rauða kross búðinni á Akureyri.
Í þessi sjö ár hefur Lárus gengið í öll störf sem til falla í fataflokkuninni. „Ég er nokkuð slitinn af langvarandi erfiðisvinnu þannig að undanfarið hef ég þurft að hlífa mér við sumum þáttum vinnunnar,“ segir hann. Hann sé því minna í því að lyfta þungum pokum, sem geta auðveldlega verið 20-30 kíló, en er þeim mun duglegri við að flokka það sem upp úr pokunum kemur.
Hver einasti fermetri af húsnæði fataflokkunarinnar á Akureyri er nýttur til fulls. Það krefst mikillar vinnu og alls konar tilfæringa að koma öllu fyrir svo vel sé. Oft berst ýmislegt fleira en fatnaður til Eyjafjarðardeildar Rauða krossins, s.s. leikföng, skrautmunir og bækur. Kössum fullum af nothæfum hlutum og klæðum er staflað í margar hæðir. Reynt er að selja það hægt er, ýmist í Rauða krossbúðinni eða á mánaðarlegum markaði sem haldinn er í sama húsnæði. Mikið magn er svo sent í aðrar Rauða krossbúðir á landinu. Sumt sem safnast er gefið til annarra góðgerðarsamtaka sem nýta t.d. bómull í tuskur.
Lárus segir starfsemi fataflokkunarinnar á Akureyri hafa vaxið mikið á fáum árum og húsnæðið sé í raun fyrir löngu sprungið.
„Það er frábært að geta lagt því lið að skapa verðmæti úr vörum sem fólk hefur ákveðið að losa sig við og sjá að fjármunir sem út úr fataverkefninu á Akureyri koma eru að nýtast til mikilvægra verkefna,“ segir hann. „Ég er stoltur af því að geta sagt vinum að ég vinni sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Sjálfboðaliðastarfið hefur gefið mér tilbreytingu í amstri dagsins auk þess góða félagsskapar sem ég hef notið í vinnunni þessi ár. Í ljósi minnar reynslu mæli ég eindregið með því að fólk gerist sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum. Þar er mjög fjölbreytt sjálfboðaliðastarf gangi.“
Rauði krossinn er stöðugt að leita að fleiri sjálfboðaliðum til starfa við verkefni sem félagið sinnir um allt land. Vilt þú verða sjálfboðaliði? Hér getur þú kynnt þér málin og sótt um.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Söfnuðu pening í fötuna í stað sælgætis
Almennar fréttir 19. desember 2025Börn sem þurfa aðstoð eru ofarlega í hugum Jóhanns Atla, Jans Kára og Björns Dags, níu ára pilta úr Garðabæ sem söfnuðu fé fyrir Rauða krossinn.
Smíðuðu, bökuðu og föndruðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 15. desember 2025„Við völdum Rauða krossinn því okkur finnst þau gera mikið gagn fyrir samfélagið okkar,“ sagði nemandi í Álfhólsskóla á fallegri athöfn þar sem Rauða krossinum var afhent fé sem nemendur söfnuðu á góðgerðardegi í skólanum.
Gerðist sjálfboðaliði eftir að starfsferli lauk
Innanlandsstarf 11. desember 2025Í sjö ár hefur Guðrún Salome Jónsdóttir, fyrrverandi kennari, tekið vaktir í fatabúðum Rauða krossins. Hún er þar sjálfboðaliði og segir það gefandi og veita sér ánægju.