Almennar fréttir
7. október – taktu kvöldið frá!
28. september 2022
Næsta föstudagskvöld stendur Rauði krossinn fyrir söfnunarþætti sem verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV. Fjallað verður um verkefni félagsins og þau Valdimar og Jelena Ciric, Emmsjé Gauti, Una Torfadóttir, Hildur Vala og SSSól stíga á svið, auk þess sem VHS hópurinn frumsýnir glænýtt efni sem var gert sérstaklega fyrir þáttinn.
Útsendingin hefst kl. 19:40 og á meðan hún stendur yfir verður áhorfendum boðið að taka þátt í að styðja starf Rauða krossins og gerast Mannvinur. Kynnar í þættinum verða Guðrún Sóley Gestsdóttir og Freyr Eyjólfsson og Aldís Amah Hamilton og Jóhann Alfreð Kristinsson sjá um að halda uppi fjörinu í símaveri Vodafone, þar sem fjölmargir þjóðþekktir einstaklingar taka á móti símtölum frá þeim sem vilja styrkja starf Rauða krossins.
Í þættinum verða nokkur af brýnustu verkefnunum sem Mannvinir styðja, eins og móttaka flóttafólks, neyðarhjálp fyrir þolendur náttúruhamfara og annarra áfalla, skaðaminnkun og þróunarsamvinna, kynnt með svipmyndum og fróðlegum viðtölum. Viðmælendur í þættinum eru einstaklingar sem þekkja af eigin raun hve mikilvægt er að geta treyst á Rauða krossinn þegar á reynir. Þá verður frumsýnt nýtt myndefni frá verkefnum Rauða krossins í Sómalíu og Síerra Leóne sem sýnir vel þær áskoranir sem íbúar í þessum löndum þurfa að takast á við á hverjum einasta degi.
Það vilja allir geta treyst því að geta stólað á Rauða krossinn þegar á reynir, hvort sem það er vegna náttúruhamfara, alvarlegra slysa, andlegra erfiðleika, hungursneyða eða stríðsástands. Almenningur treystir því að Rauði krossinn geti brugðist við á neyðarstundu en til þess þarf Rauði krossinn stuðning almennings.
Heimsfaraldur, átök á meginlandinu, veðurfarsbreytingar og erfiðari lífskilyrði á fjölmörgum svæðum í heiminum sýna okkur að það hefur aldrei verið eins mikilvægt að sýna mannúð og samstöðu.
Rauði krossinn lofar frábæru sjónvarpskvöldi og hvetur landsmenn til að taka þátt í starfinu með því að gerast Mannvinir.
Við biðlum til fyrirtækja og einstaklinga að leggja okkur lið og gerast Mannvinir og fylgjast með á RÚV þann 7. október kl. 19:40.
Vert er að minna á að fyrirtæki og einstaklingar geta fengið skattaafslátt af styrkjum til Rauða krossins.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
Innanlandsstarf 27. október 2025„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
Alþjóðastarf 21. október 2025Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.