Almennar fréttir
Greiðsluseðlar vegna sjúkraflutninga eingöngu rafrænir
28. nóvember 2025
Sjúkrabílasjóður hefur sent út um 25-30 þúsund greiðsluseðla á ári. „Með því að senda þá aðeins út rafrænt sparast að minnsta kosti átta milljónir króna í prentun og sendingarkostnað,“ segir Sara Sturludóttir, aðalbókari Rauða krossins.
Sjúkrabílasjóður Rauða krossins hefur nú hætt að prenta út og senda greiðsluseðla til þeirra sem hafa þurft að nýta sér þjónustu sjúkrabíla. Héðan í frá munu greiðsluseðlarnir eingöngu birtast rafrænt í heimabanka viðkomandi og þar mun einnig birtast krafa til greiðslu.
Rauði krossinn á Íslandi heldur utan um sjúkrabílaflota landsins samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Í því felst að Rauði krossinn útvegar og annast innkaup á sjúkrabílum auk þess að reka bifreiðarnar og tækjabúnað til sjúkraflutninga.
„Með þessari breytingu vonumst við til að flýta fyrir afhendingu gagna og bæta þannig þjónustuna við notendur sjúkrabílanna,“ segir Sara Sturludóttir, aðalbókari Rauða krossins á Íslandi. „Við viljum auðvitað einnig gera okkar í þágu umhverfisins með því að minnka pappírsnotkun.“
Sjúkrabílasjóður hefur sent út um 25-30 þúsund greiðsluseðla á ári. „Með því að senda þá aðeins út rafrænt sparast að minnsta kosti átta milljónir króna í prentun og sendingarkostnað,“ segir Sara. „Þetta framtak mun því renna styrkari stoðum undir rekstur sjúkrabílanna til framtíðar.“
Hér getur þú kynnt þér betur rekstur sjúkrabílanna og séð verðskrá.
Ef þú ert með einhverjar spurningar varðandi hið nýja fyrirkomulag greiðsluseðla hvetjum við þig til að hringja í Rauða krossinn í síma 570-4000.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Neyðarástandið er hvergi nærri á enda“
Alþjóðastarf 26. janúar 2026„Meirihluti fólksins á Gaza býr enn við skelfilegar aðstæður,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Byggingar eru enn rústir einar. Fjölskyldur syrgja enn ástvini. Margt af því sem þær þekktu áður er horfið. Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans er staðráðin í að halda aðstoð sinni áfram.“
Aldrei fleiri samtöl vegna sjálfsvígshugsana
Innanlandsstarf 22. janúar 2026„Þrátt fyrir að hafa reglulega yfir árið tekið saman tölur um fjölda sjálfsvígssamtala sem berast 1717, og vera meðvituð um að samtölin hafa verið að þyngjast og verða alvarlegri, þá er okkur brugðið yfir heildarsamantekt ársins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
Þróunarsamvinna eflir öryggi og varnir Íslands
Almennar fréttir 21. janúar 2026„Þróunarsamvinna er grundvöllur friðar, stöðugleika, trausts og öryggis í heiminum,“ skrifa framkvæmdastjórar sex mannúðarfélaga. „Brýnt er að stefna Íslands í varnar- og öryggismálum taki mið af því og að litið verði á öfluga þróunarsamvinnu sem hluta af öryggishagsmunum Íslands.“