Almennar fréttir
Greiðsluseðlar vegna sjúkraflutninga eingöngu rafrænir
28. nóvember 2025
Sjúkrabílasjóður hefur sent út um 25-30 þúsund greiðsluseðla á ári. „Með því að senda þá aðeins út rafrænt sparast að minnsta kosti átta milljónir króna í prentun og sendingarkostnað,“ segir Sara Sturludóttir, aðalbókari Rauða krossins.
Sjúkrabílasjóður Rauða krossins hefur nú hætt að prenta út og senda greiðsluseðla til þeirra sem hafa þurft að nýta sér þjónustu sjúkrabíla. Héðan í frá munu greiðsluseðlarnir eingöngu birtast rafrænt í heimabanka viðkomandi og þar mun einnig birtast krafa til greiðslu.
Rauði krossinn á Íslandi heldur utan um sjúkrabílaflota landsins samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Í því felst að Rauði krossinn útvegar og annast innkaup á sjúkrabílum auk þess að reka bifreiðarnar og tækjabúnað til sjúkraflutninga.
„Með þessari breytingu vonumst við til að flýta fyrir afhendingu gagna og bæta þannig þjónustuna við notendur sjúkrabílanna,“ segir Sara Sturludóttir, aðalbókari Rauða krossins á Íslandi. „Við viljum auðvitað einnig gera okkar í þágu umhverfisins með því að minnka pappírsnotkun.“
Sjúkrabílasjóður hefur sent út um 25-30 þúsund greiðsluseðla á ári. „Með því að senda þá aðeins út rafrænt sparast að minnsta kosti átta milljónir króna í prentun og sendingarkostnað,“ segir Sara. „Þetta framtak mun því renna styrkari stoðum undir rekstur sjúkrabílanna til framtíðar.“
Hér getur þú kynnt þér betur rekstur sjúkrabílanna og séð verðskrá.
Ef þú ert með einhverjar spurningar varðandi hið nýja fyrirkomulag greiðsluseðla hvetjum við þig til að hringja í Rauða krossinn í síma 570-4000.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Jólamerkimiðar Rauða krossins komnir út
Almennar fréttir 27. nóvember 2025Verkefni Rauða krossins á Íslandi í heila öld eru þemað á fallegum myndum sem prýða jólamerkimiða félagsins í ár. Miðunum hefur þegar verið dreift inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu og þá verður hægt að nálgast víða um landið á næstu dögum.
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.