Almennar fréttir
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
18. nóvember 2025
Söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað, skó og fylgihluti til endursölu hefur nú verið komið fyrir við fimm verslanir Bónuss á höfuðborgarsvæðinu. „Við hvetjum alla til að huga að gæðum frekar en magni þegar föt eru keypt og líka að hugsa um hvar flíkurnar eiga eftir að enda,“ segir Guðbjörg Rut Pálmadóttir, teymisstjóri fataverkefnisins.
Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Á höfuðborgarsvæðinu óskar Rauði krossinn aðeins eftir heilum og hreinum fatnaði, skóm og fylgihlutum sem og heimilistextíl s.s. gardínum, rúmfötum, garni og efni til föndurgerðar. Þetta skal setja í kassana í lokuðum pokum. Allt sem safnast verður flokkað af kostgæfni og selt í verslunum Rauða krossins í Reykjavík eða nýtt í ýmis mannúðarverkefni Rauða krossins.
Engar breytingar voru gerðar á söfnun textíls annars staðar á landinu. Enn er t.d. tekið á móti öllum textíl á starfssvæði Eyjafjarðardeildar Rauða krossins.
Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu afþakkar hraðtískufatnað frá kínverskum netverslunum á borð við Temu og Shein þar sem félagið vill ekki ýta undir ofneyslu og sóun. Auk þess hefur verið sýnt fram á að of mikið magn eiturefna geti leynst í fötum frá þeim.
Fyrir var Rauði krossinn með tvo söfnunarkassa á höfuðborgarsvæðinu; við höfuðstöðvar Rauða krossins í Efstaleiti 9 og við fataflokkunarmiðstöð félagsins á jarðhæðinni í Skútuvogi 1C. Þeir verða áfram á sínum stað.
Nýju kassarnir eru við eftirtaldar Bónusverslanir:
Kópavogur: Smáratorg
Hafnarfjörður: Helluhraun
Garðabær: Miðhraun
Reykjavík: Fiskislóð (Grandi) og Norðlingaholt.
Að auki er hægt að koma með framlög í fatamiðstöðina í Skútuvogi milli klukkan 9 og 15 mánudaga til fimmtudaga og 9-14 á föstudögum og afhenda starfsmanni eða sjálfboðaliða.
Sjá kort yfir alla söfnunarstaði hér.
„Við höfum verið að endurskipuleggja fatasöfnunina hjá okkur og er fjölgun söfnunarkassa liður í því,“ segir Guðbjörg Rut Pálmadóttir, teymisstjóri fataverkefnis Rauða krossins.Á höfuðborgarsvæðinu hefur félagið hætt útflutningi á textíl og einbeitir sér nú að því að safna góðum fatnaði, skóm og fylgihlutum, s.s. töskum, beltum og skarti, til sölu í Rauða kross-búðunum í Reykjavík. Eina slíka er að finna í Mjódd, aðra í Kringlunni og tvær á Laugavegi. Í þeim öllum standa sjálfboðaliðar vaktina.
Allur ágóði af fatasölunni rennur til mannúðarverkefna Rauða krossins á Íslandi, innanlands sem utan.
„Með fataverkefninu vill Rauði krossinn leggja sín lóð á vogarskálar hringrásarhagkerfisins en fatasalan er einnig mjög mikilvæg fjáröflunarleið fyrir félagið,“ minnir Guðbjörg á. „Þess vegna skiptir okkur miklu máli að geta haft úrval af góðum flíkum, að sjálfsögðu heilum og hreinum, til sölu.“
Fatakassar í alfaraleið
Mikið lán var fyrir Rauða krossinn að fá Bónus í lið með sér varðandi staðsetningu nýju fatakassanna. Verslanir Bónus eru í alfaraleið fólks sem auðveldar söfnunina verulega.
„Það er okkur hjá Bónus sönn ánægja að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni með Rauða krossinum,“ segir Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóri Bónuss. „Við vitum að endurnýting og sjálfbærni skiptir viðskiptavini okkar miklu máli og með nýju söfnunarkössunum viljum við bæði styðja það góða framtak og styrkja mikilvægt mannúðarstarf Rauða krossins í leiðinni.“
Rauði krossinn mun leggja sig allan fram við að tæma söfnunarkassana svo þeir verði ekki yfirfullir. „Við ætlum að gera þetta eins vel og við getum,“ segir Guðbjörg.
Hvar enda fötin þín?
Endurnýting á fatnaði og fylgihlutum er sífellt að aukast og verða vinsælli. „Við hvetjum alla til að huga að gæðum frekar en magni þegar föt eru keypt og líka að hugsa um hvar flíkurnar eiga eftir að enda,“ segir Guðbjörg. „Við finnum að fólk vill koma til okkar góðum fatnaði – að hann fái framhaldslíf hjá öðrum. Þess vegna höfum við sett upp fleiri söfnunarkassa svo að fólk geti gripið með sér valin föt í poka í næstu Bónusferð. Þannig getur fólk tekið þátt í þessu verkefni með okkur og verið í liði með mannúðinni í leiðinni.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Úr einu hestafli í 180 á tæpri öld
Innanlandsstarf 06. janúar 2026Rauði krossinn hefur útvegað og rekið sjúkrabíla landsins allt frá árinu 1926. Á þeim tíma hefur hestöflunum sem notuð eru til sjúkraflutninga heldur betur fjölgað.
Fjögur frækin frændsystkini söfnuðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 30. desember 2025Matthías Snorrason, Leó Bacchetti, Emma Högnadóttir og Óskar Snorrason fengu hugmynd og örkuðu þegar af stað til að safna pening í Vesturbænum fyrir Rauða krossinn.
Samið um aukið fjármagn til Frú Ragnheiðar
Innanlandsstarf 23. desember 2025„Besta jólagjöfin,“ segir deildarstjóri hjá Rauða krossinum. „Mikilvægt fyrir samfélagið allt,“ segir heilbrigðisráðherra. Frú Ragnheiður mun áfram aka um landið og veita fólki sem notar vímuefni skaðaminnkandi þjónustu og ráðgjöf.