Almennar fréttir
Terra Einingar styrkir Rauða krossinn á Íslandi
20. júlí 2023
Terra Einingar og Rauði krossinn á Íslandi munu á næstu dögum skrifa undir samstarfssamning er felur í sér styrk í formi húsnæðis undir starfssemi Ylju. Í verkefnið verða notaðar húseiningar frá Terra Einingum sem reistar verða fyrir Rauða krossinn undir samfélagsverkefni Rauða krossins sem ber nafnið Ylja.
Ylja örugga neyslurýmið er mikilvægt skref í þjónustu við fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Það byggir á hugmyndafræðinni um skaðaminnkun en í því felst að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar vímuefna, án þess endilega að draga úr notkun þeirra. Í rýminu munu einstaklingar 18 ára og eldri geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti starfsfólks.
Markmið Ylju er að lágmarka þörf einstaklinga til að neyta vímuefna á almannafæri og þannig koma í veg fyrir þann skaða sem vímuefnaneysla í óöruggum aðstæðum getur haft í för með sér. Má þar nefna sýkingar, blóðborna smitsjúkdóma og ofskammtanir. Ylja leggur einnig áherslu á að mynda traust, veita stuðning og viðhalda mannlegri reisn hjá notendum úrræðisins.
Verkefnið hófst 9.mars árið 2022 og var þá í sérútbúinn bíl sem var staðsettur í miðbæ Reykjavíkur en samningur Rauða krossins og Reykjavíkurborgar rann út í mars síðastliðnum. Verkefnið þarfnast stærra og betra húsnæðis og munu einingarnar frá Terra Einingum vera stórkostleg viðbót við þjónustu þeirra sem nýta sér neyslurýmið.
Terra Einingar er leiðandi fyrirtæki í einingalausnum. Hvort sem um ræðir byggingu skóla, leikskóla, skrifstofur, vinnubúðir, gistieiningar ásamt geymslueiningum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Söfnunarfé frá almenningi til Mjanmar
Alþjóðastarf 04. nóvember 2025Fé sem safnaðist í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi í kjölfar jarðskjálftanna í Mjanmar í lok mars mun nýtast Rauða krossinum þar í landi til áframhaldandi stuðnings við þolendur hamfaranna.
Smíðuðu búð og söfnuðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 03. nóvember 2025Framkvæmdagleði, dugnaður og hjálpsemi einkennir vinkonur úr Engjaskóla í Grafarvogi sem gerðu sér lítið fyrir nýverið og smíðuðu búð og seldu þar handverk sem þær sjálfar höfðu búið til. Allt var þetta gert til að hjálpa öðrum.
„Við viljum hjálpa börnum og bara öllum“
Almennar fréttir 29. október 2025Þrír níu ára gamlir vinir úr Kársnesinu í Kópavogi gengu í hús og báðu um hluti til að selja á tombólu. Þannig söfnuðu þeir 8.571 krónu fyrir Rauða krossinn.