Almennar fréttir
Vel heppnaður aðalfundur Rauða krossins um helgina
07. maí 2024
Rauði krossinn á Íslandi hélt aðalfund síðasta laugardag. Farið var yfir starf félagsins síðustu tvö ár, litið til framtíðar, lög endurskoðuð og nýir stjórnarmeðlimir kosnir.
Aðalfundur Rauða krossins á Íslandi fór fram á Hótel Reykjavík Grand síðasta laugardag, 4. maí. Fundurinn hófst með ávörpum Silju Báru R. Ómarsdóttur, formanns félagsins, og Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra. Ráðherra ræddi um mikilvægi og gildi starfs Rauða krossins og hrósaði því sérstaklega hvernig félagið hefði staðið að opnun og rekstri fjöldahjálparstöðva vegna jarðhræringanna á Reykjanesi.
Því næst voru sjálfboðaliðarnir Genka Krasteva G. Yordanova, Guðný Björnsdóttir, Gunnar Frímannsson, Sesselja Þórðardóttir, Sveinn Kristinsson og Sveinn Þorsteinsson heiðruð fyrir öflugt sjálfboðastarf sitt fyrir félagið í áraraðir.
Árgjald hækkað og lagabreytingar samþykktar
Að þessu loknu hófust aðalfundarstörf samkvæmt 8. gr. laga um Rauða krossins. Farið var yfir starf og reikninga félagsins síðustu tvö ár, en aðalfundur fer fram á tveggja ára fresti. Einnig var samþykkt hver yrðu helstu verkefni næstu ára, en þar eru ekki gerðar neinar grundvallarbreytingar. Um leið var skipting tekna næstu tvö ár samþykkt og ákveðið að hækka árgjald félagsmanna úr 3.900 kr í 4.500 kr, til að koma til móts við verðbólgu.
Gerðar voru lítils háttar breytingar á lögum félagsins, en þær snerust um leiðréttingar á villum, innleiðingu kynhlutlausara orðalags og smávægilegar efnislegar breytingar. Þessar breytingar voru samþykktar með miklum meirihluta.
Tvær ályktanir voru samþykktar, annars vegar um mikilvægi þess að taka á móti kvótaflóttafólki og hins vegar um áhyggjur af útlendingaandúð. Þær má lesa hér.
Nýir meðlimir kosnir í stjórn
Loks fóru fram kosningar í störf fyrir félagið. Sigríður Stefánsdóttir var kosin varaformaður félagsins til fjögurra ára, en hún hefur sinnt því hlutverki síðustu tvö ár frá síðasta aðalfundi, og fimm nýir stjórnarmenn voru kosnir til fjögurra ára og einn til tveggja ára.
Nýju stjórnarmeðlimirnir sem voru kosnir til fjögurra ára eru Arnbjörg Sveinsdóttir, Ingibjörg Á. Bjarnadóttir, Jón Ásgeirsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir og Óttarr Proppé, en Auðbjörg B. Bjarnadóttir var kosin til tveggja ára. Unnsteinn Ingason og Árni Jóhannsson voru svo kosnir varamenn í stjórn til tveggja ára.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.
Söfnunarfé frá almenningi til Mjanmar
Alþjóðastarf 04. nóvember 2025Fé sem safnaðist í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi í kjölfar jarðskjálftanna í Mjanmar í lok mars mun nýtast Rauða krossinum þar í landi til áframhaldandi stuðnings við þolendur hamfaranna.