Fara á efnissvæði

Innanlandsstarf

Gerðist sjálfboðaliði eftir að starfsferli lauk

11. desember 2025

Í sjö ár hefur Guðrún Salome Jónsdóttir, fyrrverandi kennari, tekið vaktir í fatabúðum Rauða krossins. Hún er þar sjálfboðaliði og segir það gefandi og veita sér ánægju.

Guðrún Salome tekur reglulega vaktir í fatabúð Rauða krossins í Kringlunni. Mynd: Golli

Eftir að kennarinn Guðrún Salome Jónsdóttir lét af störfum fyrir nokkrum árum langaði hana til að halda áfram að láta gott af sér leiða fyrir samfélagið. Hún hafði kennt ensku á grunn- og síðar framhaldsskólastigi í áratugi, síðast í Menntaskólanum í Kópavogi, í sínum heimabæ. Er hún hafði kvatt nemendurna í síðasta sinn var hún orðin ákveðin í því að bjóða krafta sína fram til sjálfboðastarfa. Og þá kom Rauði krossinn fljótt upp í hugann.

Guðrún sótti um að gerast sjálfboðaliði og var tekið fagnandi hjá félaginu, enda alltaf eftirspurn eftir viljugum og áreiðanlegum sjálfboðaliðum. Ekki leið á löngu þar til hún var mætt til starfa í einni af verslunum Rauða krossins í Reykjavík. „Ég fékk góða handleiðslu frá reyndum sjálfboðaliðum,“ segir hún um fyrstu skrefin í starfinu.

Sækja um sem sjálfboðaliði

Þetta var árið 2019 og nú, að verða sjö árum síðar, tekur hún enn vaktir í búðunum, aðallega þeirri sem er að finna í Kringlunni. Hún aðstoðar og afgreiðir viðskiptavini sem eru komnir til að gera góð kaup á notuðum fatnaði og leggja þar með sín lóð á vogarskálar mannúðarstarfs og hringrásarhagkerfisins. „Ég hef fengið mikla ánægju af starfinu,“ segir Guðrún.

Rauði krossinn rekur fataverslanir með notaðan fatnað, skó og fylgihluti, og stundum ýmislegt annað, víða um land. Í Reykjavík eru verslanirnar fjórar: Í Mjódd, Kringlunni og á tveimur stöðum við Laugaveg.

„Ég mæli með því að fólk gerist sjálfboðaliðar,“ segir Guðrún, „því það er mjög gefandi“.

Hér getur þú kynnt þér verkefni Rauða krossins, séð í hver þeirra vantar nú sjálfboðaliða og sótt um að gerast sjálfboðaliði.

Sjálfboðastarf

Vissir þú að ...

það er ólíkt milli verkefna hversu mikinn tíma sjálfboðaliðar eru beðnir um að leggja fram og í hve lengi þeir þurfa að skuldbinda sig?

Í sumum verkefnum verja sjálfboðaliðar einni klukkustund vikulega en í öðrum t.d. 3 klukkustundum tvisvar í mánuði. Stundum eru sjálfboðaliðar beðnir um að skuldbinda sig til 6 eða 12 mánaða en oft mun skemmur.