Fara á efnissvæði

Innanlandsstarf

Samið um aukið fjármagn til Frú Ragnheiðar

23. desember 2025

„Besta jólagjöfin,“ segir deildarstjóri hjá Rauða krossinum. „Mikilvægt fyrir samfélagið allt,“ segir heilbrigðisráðherra. Frú Ragnheiður mun áfram aka um landið og veita fólki sem notar vímuefni skaðaminnkandi þjónustu og ráðgjöf.

Þjónusta Frú Ragnheiðar er veitt í bíl. Þrír bílar eru á landinu: Á Akureyri, Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu.

Sjúkratryggingar Íslands og Rauði krossinn á Íslandi hafa gert með sér samkomulag um framlengdan og breyttan samning um skaðaminnkandi þjónustu Frú Ragnheiðar fyrir fólk með vímuefnavanda. Fjármagn til starfseminnar hækkar úr tæpum 23 milljónum króna í 50 milljónir króna á ársgrundvelli.

„Eins og fram kemur í stjórnarsáttmála leggur ríkisstjórnin sérstaka áherslu á að efla meðferðarúrræði vegna fíknivanda og auka fjármagn til málaflokksins,“ segir Alma Möller heilbrigðisráðherra. „Skaðaminnkun og lágþröskuldaþjónusta í nærumhverfi þeirra viðkvæmu einstaklinga sem Frú Ragnheiður sinnir er liður í því að bæta þjónustu við fólk sem glímir við fíkn og mikilvægt fyrir samfélagið allt.“

Þrír bílar 

Þjónusta Frú Ragnheiðar er veitt í sérútbúnum bílum sem ekið er á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og á Akureyri. Boðið er upp á nálaskiptaþjónustu, heilbrigðisþjónustu og sálrænan stuðning og ráðgjöf. Í bílunum geta skjólstæðingar einnig fengið hlý föt og næringu.

Frú Ragnheiður hefur það að markmiði að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða sem og að auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem nota vímuefni með því að veita skaðaminnkandi lágþröskuldaþjónustu í nærumhverfi einstaklinga. Samfélagslegur ávinningur er margvíslegur af verkefnum Frú Ragnheiðar, s.s. lækkun á tíðni sýkinga og útbreiðslu smitsjúkdóma á borð við HIV og lifrarbólgu C, færri dauðsföll af völdum ofskömmtunar, ábyrgari notkun vímuefna og minna af notuðum sprautubúnaði í almenningsrýmum.

Staðfesting á mikilvægi verkefnisins

„Við sem komum að Frú Ragnheiði erum að springa úr gleði og tökum þakklát við þessu aukna fjármagni sem er besta jólagjöfin til skaðaminnkunar,“ segir Ósk Sigurðardóttir, deildarstjóri höfuðborgardeildar Rauða krossins. Frú Ragnheiður hefur verið starfandi frá 2009 á höfuðborgarsvæðinu. „Á hverju ári höfum við sýnt fram á mikla þörf á skaðaminnkun og lágþröskulda heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga sem nota vímuefni. Við erum þakklát fyrir skilning stjórnvalda á mikilvægi þjónustunnar. Nú munum við halda ótrauð áfram.“

Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri Eyjafjarðardeildar Rauða krossins, tekur í sama streng. „Þessi stóraukna styrkveiting Sjúkratrygginga Íslands til Frú Ragnheiðar er staðfesting á því að verkefnið er mikilvæg heilbrigðisþjónusta við jaðarsettan og viðkvæman hóp samfélagsins og að Rauði krossinn sinnir þar veigamiklu hlutverki.“ Hún segir verkefnið hafa verið í mikilli rekstaróvissu lengi. „En nú horfum við fram á bjartari tíma hvað það varðar. Við erum þakklát fyrir traustið sem okkur er sýnt og munum halda einbeitt áfram að þjónusta af hlýju og virðingu, öll þau sem leita til okkar í Frú Ragnheiði.“