Innanlandsstarf
Úr einu hestafli í 180 á tæpri öld
06. janúar 2026
Fyrir rúmri öld voru sjúklingar í Reykjavík fluttir í hestvagni á sjúkrahús. Svo kom fyrsti sjúkrabílinn og sá næsti var keyptur af Rauða krossinum sem hefur haft rekstur sjúkrabíla á Íslandi með höndum allar götur síðan.
Rauði krossinn hefur útvegað og rekið sjúkrabíla landsins allt frá árinu 1926. Á þeim tíma hefur hestöflunum sem notuð eru til sjúkraflutninga heldur betur fjölgað.
Lítum til fortíðar:
Sjúkraflutningar í Reykjavík fóru þannig fram um og eftir aldamótin 1900 að ef sjúklingur gat ekki komist hjálparlaust undir læknishendur var hann borinn í lokaðri sjúkrakistu, svokallaðri „körfu“, oftast af sex mönnum. „Álengdar leit þessi flutningur út eins og líkfylgd því að á eftir gengu oft aðstandendur og forvitinn götulýður og var það niðurlægjandi fyrir fólk að vera þannig borið um götur bæjarins,“ skrifar Guðjón Friðriksson sagnfræðingur í 100 ára sögu Rauða krossins á Íslandi sem kom út á afmælisárinu 2024.
Árið 1917 kom Landakotsspítali sér upp lokuðum hestvagni með fjaðrabúnaði til sjúkraflutninga. Hægt var að fá vagninn lánaðan en aðstandendur urðu sjálfir að leggja til hesta. Var þá oftast leitað til Slökkviliðs Reykjavíkur sem hafði tiltæka vel tamin hross. Þar af leiðandi kom það oftar en ekki í hlut brunavarða að annast sjúkraflutninga, hefð sem hefur haldist síðan.
Og svo kom bíllinn
Bæjarstjórn Reykjavíkur keypti fyrsta eiginlega sjúkrabíl landsins árið 1921 og sá Slökkvilið Reykjavíkur um rekstur hans. Fljótt var ljóst að sárlega vantaði bíl sem gæti sótt sjúklinga utan Reykjavíkur og nágrennis. Og þá var komið að þætti Rauða krossins í rekstri sjúkrabíla. Félagið keypti sinn fyrsta sjúkrabíl árið 1926. Sá bíll var vel útbúinn á þess tíma mælikvarða og gat flutt tvo sjúklinga í einu. Eftir þau kaup varð útvegun og rekstur sjúkrabíla eitt helsta verkefni Rauða krossins.
Lestu allt um jólamerkimiða Rauða krossins hér. Myndir úr starfi Rauða krossins síðustu hundrað árin prýddu miðana í þetta sinn. Viljir þú styrkja innanlands starf félagsins er þér velkomið að greiða valgreiðsluseðil frá Rauða krossinum í heimabanka þínum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Fjögur frækin frændsystkini söfnuðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 30. desember 2025Matthías Snorrason, Leó Bacchetti, Emma Högnadóttir og Óskar Snorrason fengu hugmynd og örkuðu þegar af stað til að safna pening í Vesturbænum fyrir Rauða krossinn.
Samið um aukið fjármagn til Frú Ragnheiðar
Innanlandsstarf 23. desember 2025„Besta jólagjöfin,“ segir deildarstjóri hjá Rauða krossinum. „Mikilvægt fyrir samfélagið allt,“ segir heilbrigðisráðherra. Frú Ragnheiður mun áfram aka um landið og veita fólki sem notar vímuefni skaðaminnkandi þjónustu og ráðgjöf.
Úr fjárhúsi í fataflokkun: Stoltur af því að vera sjálfboðaliði
Innanlandsstarf 22. desember 2025„Sjálfboðaliðastarfið hefur gefið mér tilbreytingu í amstri dagsins auk þess góða félagsskapar sem ég hef notið í vinnunni þessi ár,“ segir Lárus Sigurðsson, sjálfboðaliði í fataverkefni Rauða krossins á Akureyri. Tilviljun réði því að hann hóf þar störf.