Innanlandsstarf
Úr einu hestafli í 180 á tæpri öld
06. janúar 2026
Fyrir rúmri öld voru sjúklingar í Reykjavík fluttir í hestvagni á sjúkrahús. Svo kom fyrsti sjúkrabílinn og sá næsti var keyptur af Rauða krossinum sem hefur haft rekstur sjúkrabíla á Íslandi með höndum allar götur síðan.
Rauði krossinn hefur útvegað og rekið sjúkrabíla landsins allt frá árinu 1926. Á þeim tíma hefur hestöflunum sem notuð eru til sjúkraflutninga heldur betur fjölgað.
Lítum til fortíðar:
Sjúkraflutningar í Reykjavík fóru þannig fram um og eftir aldamótin 1900 að ef sjúklingur gat ekki komist hjálparlaust undir læknishendur var hann borinn í lokaðri sjúkrakistu, svokallaðri „körfu“, oftast af sex mönnum. „Álengdar leit þessi flutningur út eins og líkfylgd því að á eftir gengu oft aðstandendur og forvitinn götulýður og var það niðurlægjandi fyrir fólk að vera þannig borið um götur bæjarins,“ skrifar Guðjón Friðriksson sagnfræðingur í 100 ára sögu Rauða krossins á Íslandi sem kom út á afmælisárinu 2024.
Árið 1917 kom Landakotsspítali sér upp lokuðum hestvagni með fjaðrabúnaði til sjúkraflutninga. Hægt var að fá vagninn lánaðan en aðstandendur urðu sjálfir að leggja til hesta. Var þá oftast leitað til Slökkviliðs Reykjavíkur sem hafði tiltæka vel tamin hross. Þar af leiðandi kom það oftar en ekki í hlut brunavarða að annast sjúkraflutninga, hefð sem hefur haldist síðan.
Og svo kom bíllinn
Bæjarstjórn Reykjavíkur keypti fyrsta eiginlega sjúkrabíl landsins árið 1921 og sá Slökkvilið Reykjavíkur um rekstur hans. Fljótt var ljóst að sárlega vantaði bíl sem gæti sótt sjúklinga utan Reykjavíkur og nágrennis. Og þá var komið að þætti Rauða krossins í rekstri sjúkrabíla. Félagið keypti sinn fyrsta sjúkrabíl árið 1926. Sá bíll var vel útbúinn á þess tíma mælikvarða og gat flutt tvo sjúklinga í einu. Eftir þau kaup varð útvegun og rekstur sjúkrabíla eitt helsta verkefni Rauða krossins.
Lestu allt um jólamerkimiða Rauða krossins hér. Myndir úr starfi Rauða krossins síðustu hundrað árin prýddu miðana í þetta sinn. Viljir þú styrkja innanlands starf félagsins er þér velkomið að greiða valgreiðsluseðil frá Rauða krossinum í heimabanka þínum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Neyðarástandið er hvergi nærri á enda“
Alþjóðastarf 26. janúar 2026„Meirihluti fólksins á Gaza býr enn við skelfilegar aðstæður,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Byggingar eru enn rústir einar. Fjölskyldur syrgja enn ástvini. Margt af því sem þær þekktu áður er horfið. Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans er staðráðin í að halda aðstoð sinni áfram.“
Aldrei fleiri samtöl vegna sjálfsvígshugsana
Innanlandsstarf 22. janúar 2026„Þrátt fyrir að hafa reglulega yfir árið tekið saman tölur um fjölda sjálfsvígssamtala sem berast 1717, og vera meðvituð um að samtölin hafa verið að þyngjast og verða alvarlegri, þá er okkur brugðið yfir heildarsamantekt ársins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
Þróunarsamvinna eflir öryggi og varnir Íslands
Almennar fréttir 21. janúar 2026„Þróunarsamvinna er grundvöllur friðar, stöðugleika, trausts og öryggis í heiminum,“ skrifa framkvæmdastjórar sex mannúðarfélaga. „Brýnt er að stefna Íslands í varnar- og öryggismálum taki mið af því og að litið verði á öfluga þróunarsamvinnu sem hluta af öryggishagsmunum Íslands.“