Innanlandsstarf
Yfir 33 milljónir til Grindvíkinga
16. febrúar 2024
Nú hefur yfir 33 milljónum króna verið úthlutað til Grindvíkinga úr neyðarsöfnun Rauða krossins. Alls hafa yfir 45 milljónir safnast og úthlutun er enn í fullum gangi.
Úthlutunarnefnd hefur nú úthlutað samtals 33.006.230 krónum í fjárhagsaðstoð til Grindvíkinga, en þetta fé kemur úr neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi. Alls hafa safnast yfir 45 milljónir króna og úthlutun heldur áfram þar til öllu fé úr söfnuninni hefur verið komið í hendur Grindvíkinga í vanda.
Samtals hafa 350 úthlutanir farið fram til 958 einstaklinga. Úthlutunarnefnd samanstendur af fulltrúum Rauða krossins, Grindavíkurbæjar og kirkjunnar í Grindavík.
Hægt er að sækja um fjárhagsaðstoð í Þjónustumiðstöðinni fyrir Grindvíkinga í Tollhúsinu á Tryggvagötu 19 í Reykjavík og á Smiðjuvöllum 8 í Reykjanesbæ.
Neyðarsöfnun Rauða krossins er enn í fullum gangi og hér má finna upplýsingar um hvernig má styðja hana. Krónan hefur stutt söfnunina með því að bjóða viðskiptavinum sínum að leggja henni lið þegar þeir borga fyrir vörur sínar og það verður áfram í boði alla helgina.
Neyðarsöfnun Rauða krossins hefur gengið afar vel og fengið mikinn stuðning þjóðarinnar, en auk þess hefur fjöldi erlendra aðila lagt henni lið. Þar á meðal Rauði krossinn í Færeyjum, sem safnaði 10 milljónum króna sem runnu til söfnunarinnar.
Kostnaður við kynningu söfnunarinnar og úthlutun er innan við 1% af upphæðinni sem hefur safnast, svo yfir 99% af hverju framlagi fer beint í vasa Grindvíkinga í fjárhagsvanda.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.
Söfnunarfé frá almenningi til Mjanmar
Alþjóðastarf 04. nóvember 2025Fé sem safnaðist í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi í kjölfar jarðskjálftanna í Mjanmar í lok mars mun nýtast Rauða krossinum þar í landi til áframhaldandi stuðnings við þolendur hamfaranna.
Smíðuðu búð og söfnuðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 03. nóvember 2025Framkvæmdagleði, dugnaður og hjálpsemi einkennir vinkonur úr Engjaskóla í Grafarvogi sem gerðu sér lítið fyrir nýverið og smíðuðu búð og seldu þar handverk sem þær sjálfar höfðu búið til. Allt var þetta gert til að hjálpa öðrum.